Á mála uppi og niðri
Hvinur í ljá og glamur í méli og Dauðinn býr í Rauðadal. Eilífðarskórnir þramma yfir sviðið og bitvopnið bitnar á fólki hægri vinstri en ekki af neinu handahófi. Maðurinn með ljáinn veit vel hvað hann syngur: Dauðarokk að sjálfsögðu. Hann hefur aldrei pælt í því af hverju honum er ekki skaffað skárra verkfæri en ljárinn til dæmis garðklippur, heykvísl eða handsprengja. Skrítið. Vinnuveitendur? Gott im Himmel og hinn vondi að sjálfsögðu, en deildarstjórar eru þær Urður, Verðandi og Skuld. Þegar dettur inn dauður tími hjá okkar manni, strýkur hann snoppuna á Bleik eða hendir í vél. Og stundum strýkur hann hvítt hárið frá beinaberu andlitinu, beinaberum fingrum og hugsar aftur til eftirminnilegra manna sem hann sótti. Svo sem Adam og Davíð, Búdda, Baldur og Halldór Laxness. Hann botnaði ekkert í dauða Jesú fyrr en hann las Bókina.